Chia- skyrbúðingur

Hef verið að prufa að vera á lágkolvetnafæði undanfarið og hefur tekist það nokkuð vel, fyrir utan einstaka skipulagða „svindldaga“.
Hægt að hafa matinn mjög fjölbreyttan en krefst stundum annarrar hugsunar en venjulega. Erfiðast finnst mér að sleppa brauði og kartöflum, en er á meðan er ekki satt.

Til að seðja sætindapúkann gerði ég þennan gómsæta desert sem heimasætunni fannst líka alveg ljómandi góður.

IMG_1599

Setti 2 msk af Chiafræjum í skál og rúmlega 1 dl af heitu vatni yfir, lét standa í 4 klst. Þeytti þá 2 dl af rjóma, setti 1 dollu af MS vanilluskyri, 1 msk af vanilludropum og 1-2 msk gervisykur (meira/minna eftir smekk og tegund), hrærði þessu svo öllu saman við Chiafræin. Setti u.þ.b. 2 dl í hverja skál og lét standa í ískáp í 2 tíma (geymist alveg í nokkra daga.
Skar síðan niður 8 jarðaber og setti ofan á um leið og var borið fram.

Innihald fyrir 4
2 msk Chiafræ
1 dl vatn (eða rúmlega það)
2 dl rjómi
1 dós MS vanilluskyr
1-2 msk gerfisæta
1 msk vanilludropar
8 jarðaber.

Auglýsingar
Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Salvíu- sinnepkjúklingur

Þó ég hafi ekkert skrifað hér inn síðan í byrjun janúar, er ég ekkert hætt að halda þessu bloggi áfram.
Hef samt mest verið að elda reyndar uppskriftir og venjast nýju eldhúsi eftir flutning 1. febrúar. Svo er vetrarbirtan um kvöldmatarleytið ekki alltaf þannig að gott sé að taka myndir en nú er komið sumar eftir dagatalinu og þá verður vonandi eitthvað meira um myndartökur.
Salvían mín frá síðasta sumri, hefur komið vel undan vetri í eldhúsglugganum og var því tilvalið að nýta af henni í matinn.

IMG_1588

Var með 1 lítinn Holtakjúkling (dugar fyrir 3). Klippti bakið af og flatti út, skar 2 skurði ofan í lærin, setti í eldfast mót.
Hrærði saman 3 msk smjör, 1 1/2 msk söxuð salvía og 2 tsk Dijonsinnep og setti undir skinnið, bæði á bringu og lærum. Kryddaði með kjúklingakryddi, skar niður í bita 2 ræmur af beikoni og dreifði yfir (má sleppa).
Setti inn í 200° heitan ofn og eftir 20 mínútur setti ég 150 ml af vatni í mótið.
Eftir aðrar 30 mínútur hellti ég soðinu í pott, lét kjúklinginn standa á borði. Sauð soðið niður um helming, bætti rjóma í og sauð aðeins í viðbót, bætti í smá kjúklingakrafti og 1 tsk af Dijonsinnepi.
Bar fram með léttsteiktum strengjabaunum, sætkartöflumús og fersku salati.
Við heimasætan vorum sammála um að þetta væri sérlega vel heppnuð máltíð.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Brauðsúpa

Enn einn árið hafið og það sem af er hef ég verið í fríi, eins og ég er svo oft fyrstu viku ársins.
Svo heppilegt núna að ég hef getað nýtt það í að pakka niður því ég flyt í lok mánaðarins hér í næstu götu.

IMG_1561

Þessi fyrsta færsla ársins er svo sannarlega ekki holl en eitt af því besta sem ég borða og er gamaldags rúgbrauðssúpa sem mín kynslóð og þeir sem eldri eru kannast flestir vel við.  Einfalt og fljótlegt að gera, eins og ég geri þetta.
300 gr. rúgbrauð sett í pott og vatn svo nánast fljóti yfir, látið standa a.m.k. í 1-2 tíma, má vera yfir nótt.
Síðan er 1 maltflösku bætt út í og suðan látin koma upp og svo soðið í 10-15 mínútur, þá maukað vel með töfrasprota eða í mixara/matvinnsluvél, þá eru 2 sneiðar af sítrónu og góð lúka af rúsínum sett út í og soðið í 5-10 mínútur, bæta við vatni ef viljið hafa þynnra.
Borið fram með stífþeyttum rjóma.

Innihald:
300 gr rúgbrauð
Vatn
1 flaska maltöl
2 sneiðar sítróna
Góð lúka af rúsínum

Birt í Eftirréttir, Súpur | Færðu inn athugasemd

Rauðrófusalat.

Vorum með litlu jólin í vinnunni í fyrradag og þar var boðið upp á létt jólahlaðborð. Meðal rétt var langreykt hangikjöt (sem er í dag kallað tvíreykt), sem við fengum að gjöf frá einum af mörgum velunnurum okkar.
Eftir mikla leit að góðu meðlæti með enduðum við á að hafa rauðrófusalat með, enda það eitt af því jólalegasta að bjóða upp á rauðrófur.
Fann samt ekkert sem ég var fullkomlega ánægð með og á endanum ákvað ég þessa samsetningu sem tókst svona ljómandi vel.

untitled

Sem meðlæti fyrir 8-10 gerði ég eftirfarandi.

Hellti rauðbeðunum á sigti og lét renna vel af þeim og þerraði síðan með eldhúsbréfi. Skar í litla bita og setti á fat. Muldi fetaostbitann yfir, setti fetaostinn úr krukkinni yfir og tilheyrandi olía. Blandaði vel saman. Saxaði myntuna vel niður og stráði yfir.

Ef það hefðu fengist nýjar rauðrófur í Samkaup á Dalvík, hefði ég soðið eins og tvær og notað í stað þessara niðursoðnu.

Innihald

1 stór krukka niðursoðnar rauðbeður
1/2 fetaostur
1/2 lítil krukka af Fetaosti í kryddolíu (blár miði)
8-10 blöð af myntu.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Mömmukökur

Jólin nálgast óðfluga og ég sem ætlaði svoleiðis að hafa það rólegt í desember og vera búin að „öllu“ í nóvember.
Svo er nú reyndar alltaf spurning hvað þetta „allt“ er, ég ætla mér alltaf að festast ekki í neinum siðum og venjum, en svo er venjunum frekar að fjölga eða að verða viðameiri ár frá ári.
Að baka mömmukökur, vanilluhringi og gera laufabrauð er þó eitthvað sem hefur fylgt mér allt mitt líf og nú þegar ég er orðin 52 ára þá hef ég verið virk í að gera þessa hluti í yfir 40 ár, þar sem ég var farin að baka til heimilisins fyrir 10 ára aldur.

IMG_1500

Mörgum vex í augum að gera svona hnoðaðar og flattar kökur, en þetta er þó frekar einfalt í framkvæmt og hægt að geyma deigið í nokkra daga í ísskáp og baka svo nokkrar plötur á dag.
Allt sem á að fara í deigið sett í hrærivélarskálina eða á borð og hnoðað vel saman. Mótuð kúla, pakkað vel inn í plast (best að nota poka sem hægt er að loka þétt), sett í ísskáp og geymt til næsta dags eða í nokkra daga (allt að viku allavegana).

IMG_1495

Þá tekin hæfilegur biti af deiginu og flattur þunnt út (svona nálægt 2 millimetrar eða eins þunnt og hver treystir sér til).

IMG_1496

Skornar út kökur, ég nota lítið glas sem er svona rúmir 2 cm í þvermál, kökurnar færðar á bökunarplötu, má raða þétt og bakaðar við 180 °C í ca 10 mínútur eða þar til hæfilega brúnar. Kældar. Má geyma að vild eftir bakstur.

IMG_1497

Allt sem á að fara í kremið sett í skál og þeytt vel saman. Ég set kremið síðan í rjómasprautupoka með stjörnustút og sprauta á helminginn af kökunum.

IMG_1498

Legg hina síðan yfir og þrýsti létt saman.
Sett í kökubauk og geymt við stofuhita, eru bestar þegar búnar að jafna sig í 1-3 vikur, en geymast vel í nokkra mánuði ef svo ólíklegt er að þær klárast ekki yfir jólin.

Innihald:
250 gr smjörlíki
250 gr sykur
500 gr sýróp
1 kg hveiti
4 tsk engifer
2 tsk natron
2 egg

Krem
500 gr flórsykur
300 gr smjör eða smjörlíki
1 eggjarauða (má vera heilt egg)
1-2 tsk vanillusykur

Birt í Kökur, Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Brúnkál

Þegar veturinn færist yfir og svo ekki sé talað um þegar snjóar, þá fyllist ég gjarnan löngun í mat æskunnar sem er full af minningum en reynist svo misgóður þegar reynt er að endurtaka.
Eitt af því sem var stundum svona spari haft sem meðlæti bæði með lambalæri og purusteik er brúnkál, sem er sykurbrúnað hvítkál. Reyndist jafn gott og mig minnti en telst seint til hollustu og á því bara að hafa svona alveg spari.

IMG_1462

Fyrir 4 gerði ég eftirfarandi.

Saxaði niður 1 lítinn hvítkálshaus, setti í þykkbotna pott (eða djúpa pönnu), saman við fór 5 msk sykur og 3 msk smjör. Soðið saman við vægan hita þar til orðið hæfilega brúnað.
Þarf að gæta vel að þegar farið að brúnast svo brenni ekki við.

Birt í Grænmetisréttur, Meðlæti | Færðu inn athugasemd

Spænsk/marakkóskur kjúklingur.

Sé reglulega uppskrift af spænskum kjúklingarétt sem inniheldur bæði sveskjur, ólífur og lárviðarlauf sem mér finnst ekkert hljóma svakalega vel.
Allir sem um þennan rétt skrifa róma hann þó mjög svo ég ákvað að búa til mína útgáfu af honum sem mér finnst meira svona marakkóskur enda eru döðlur mjög algengar í matreiðslu þar um slóðir.

IMG_1455

Einfaldur og þægilegur réttur, en þarf að hafa smá fyrirhyggju.
Allt sem á að fara í marineringuna er sett í skál, kjúklingabitarnir settir saman við og látið inn í ísskáp og látið vera þar í 12-24 klukkustundir.
Síðan sett í eldfast mót, steinselju, hvítvíni og púðursykri blandað saman og hellt yfir. Sett í 200 °C heitan ofn og steikt í 30-40 mínútur.
Borið fram með soðnum hýðisgrjónum.

Innihald fyrir 2

2 kjúklingabringur, hver skorin í 4-6 bita

Kryddlögur
1/8 bolli saxað fersk oreganó
1/4 bolli rauðvínsedik
1/4 bolli ólívuolía
1/2 bolli saxaðar döðlur
2 söxuð hvítlauksrif
2 msk kapers
1/2 tsk hvítur pipar

Steikarlögur
2 msk söxuð steinselja
1/4 bolli hvítvín
1/4 bolli púðursykur

Birt í Kjöt | Færðu inn athugasemd